Bolludagur, sprengidagur, öskudagur og vöfflukaffi

18.02.2021

Það er óhætt að segja að þessi vika í Regnboganum sé viðburðarík. Við byrjuðum vikuna á bolludegi og voru það ánægðir krakkar sem gæddu sér á rjómabollu með sultu og glassúr í kaffitímanum. Á sprengidag var börnum og starfsfólki boðið upp á saltkjöt og baunir í hádegismat sem rann ljúflega niður í mannskapinn. Í gær var öskudagurinn haldinn hátíðlegur og kenndi ýmissa grasa í grímuklæðnaði bæði barna og starfsmanna. Það er gaman að segja frá því að þegar skólastjóri mætti til vinnu tóku á móti henni hvorki meira né minna en 6 Fanneyjar tilbúnar í daginn! Starfsmenn Rauðu deildar voru með regnbogaþema og á Grænu mættu Stubbarnir ásamt vinum til vinnu. Við byrjuðum daginn á öskudagsballi í matsalnum, á meðan ballinu stóð var hinu ýmsu stöðvum stillt upp á öll deildum s.s. andlitsmálingarstöð, listastöð, vasaljósa/blöðru stöð ofl. og þegar börnin höfðu dansað nóg byrjuðu þau að flæða á milli allra stöðva í húsinu. Gula deildin tók líka þátt en þau gátu valið um stöðvar á bæði Rauðu og Gulu. Á morgun er síðan vöfflukaffi í tilefni af konudeginum sem er á sunnudaginn. Þá verður börnum og starfsfólki boðið upp á vöfflur í kaffitímanum.