Páskafréttir

14.04.2020

Börnin hafa verið upptekin af páskaföndri síðustu misseri og ýmsar páskalegar fíkúrur orðið til í skapandi starfi. Rauða og Græna hafa verið dugleg að fara í gönguferðir og meðal annars kíkt á glugga í hverfinu í leit að böngsum. Flest fundust 103 bangsar í einni ferðinni. Bangsaleitin hefur ekki einungis farið fram útivið heldur hefur líka verið efnt til bangsaleitar inni þegar Ágústa kom með litla bangsa að heiman og faldi um alla Grænu deildina. Börnin fengu blöð með myndum af böngsunum og fóru þau um deildina og krossuðu yfir viðeigandi mynd þegar þau voru búin að finna bangsa. Þessi leikur vakti mikla lukku! Það er aldrei að vita nema leikurinn verði endurtekin á Rauðu deildinni þegar bangsarnir hafa klárað sóttkví yfir páskana.

Á Gulu hefur starfið haldist að mestu óbreytt en yngstu börnin hafa notið til hins ýtrasta að hafa garðinn út af fyrir sig á morgnanna. Alla jafna byrja börnin á Gulu að fara í kastalann þegar líður að flutningi milli deilda í maí en ákveðið var að nýta þennan dásamlega tíma sem þau fá garðinn út af fyrir sig og leyfa þeim sem vilja að fara í kastalann börnunum til mikillar gleði. Það eru ófáar ferðirnar sem hafa verið farnar síðustu tvær vikur.

Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með börnunum mynda ný vinatengsl síðan takmörkun á skólastarfi hófst. Það er nefnilega þannig að ekki eru alltaf bestu vinirnir í leikskólanum sömu daga en það kemur ekki að sök því börnin hafa uppgötvað nýja vini sem þau höfðu ekki leikið mikið við áður öllum til mikillar gleði og ánægju.

Að lokum langar mig að segja ykkur frá niðurstöðum lestrarsprettsins með Lubba.

Gula deildin las 150 bækur,  Rauða las 260 bækur og Græna las 230 bækur. Samtals lásu því börn Regnbogans 640 Bækur. Vel gert!