Gleðilegt nýtt ár

14.01.2020

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samstarfið á liðnu ári. Nýja árið fer vel af stað í Regnboganum og eru allir að komast aftur í rútínu eftir jólafríið.

 

Danskennsla hófst fyrsta föstudag í mánuði og er það Íris Ósk Einarsdóttir sem sér um kennsluna eins og undanfarin ár. Kennslan fer vel af stað og bæði starfsfólki og börnum finnst gaman að fá læra nýja dansa hjá Írisi.

 

Það er óhætt að segja að veturkonungur ráði ríkjum hjá okkur með tilheyrandi tilbrigðum í veðri. Við í Regnboganum reynum þó, ef hægt er, að gefa börnunum tækifæri til að viðra sig aðeins yfir daginn þó ekki sé nema í stutta stund.

Stjórnendur í leik- og grunnskólum fá reglulega upplýsingar frá almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins um þróun mála vegna veðurviðvarana og ef virkja þarf röskun á skólastarfi. Ekki hefur þurft að virkja viðbragðsáætlanir á þann hátt að sækja þurfi börn fyrr í leikskóla nú í janúar en við mælum þó alltaf með að vera fyrr á ferðinni þegar færðin er þung.

 

Í janúar gengur þorrinn í garð. Við tengjum þorrann við fræðslu um lifnaðarhætti Íslendinga í gamla daga s.s. hvernig var búið, hvað fólk borðaði og hvað húsdýrin voru mikilvægur partur af lífi fólks.

24. janúar er bóndadagur og þá höldum við þorrablót í leikskólanum. Börn og starfsfólk er hvatt til að mæta í sauðalitunum í leikskólann þann dag. Í leikskólanum útbúa börnin sínar eigin þorrakórónur sem þau bera þennan dag. Í hádeginu verður boðið upp á grjónagraut og með honum fá börnin að smakka á ýmiskonar þjóðlegum mat s.s. hákarli, sviðasultu, harðfiski ofl.

Uppfært skóladagatal er komið inn á heimasíðuna. Þar ber helst að nefna að slysavarnanámskeiðið færist fram á laugardaginn 15. febrúar.

Kveðja

Fanney Guðmundsdóttir

Skólastjóri